Stjórnsýsluhús Dalabyggðar,
    Miðbraut 11,
    370 Búðardal,
    kennitala: 510694-2019
    Sími: 430 4700

    dalir@dalir.is

Óbundnar kosningar 


Þegar enginn framboðslisti kemur fram áður en framboðsfrestur rennur út verða óbundnar kosningar. Óbundnar kosningar eru persónukosningar þar sem kosning er ekki bundin við framboð.

 

Hverjir eru í kjöri?

Allir kjósendur eru í kjöri nema þeir sem löglega eru undanþegnir skyldu til að taka kjöri og hafa fyrir fram skorast undan því. Þeir einir geta skorast undan kjöri sem setið hafa í sveitarstjórn eitt kjörtímabil eða lengur.

 

Öllum þeim sem eru kjörgengir, heilir og hraustir og yngri en 65 ára er skylt að taka kjöri í sveitarstjórn við óbundna kosningu. Þeir sem kosnir eru til sveitarstjórna og eru 65 ára og eldri er heimilt að skorast undan setu í sveitarstjórn eftir kosningar.

 

Atkvæðagreiðsla

Kjörseðill við óbundna kosningu er tvískiptur. Á efri hluta seðilsins eru auðar línur fyrir nöfn og heimilisföng aðalmanna. Á neðri hluta seðilsins eru jafnmargar tölusettar línur fyrir nöfn og heimilisföng varamanna.

 

Á efri hluta kjörseðilsins skal kjósandi rita með prentstöfum fullt nafn og heimilisfang sjö aðalmanna. Á neðri hluta seðilsins skal kjósandi rita með prentstöfum nafn og heimilisfang sjö varamanna í þeirri röð sem hann kýs að þeir taki sæti.

 

Gildur/ógildur kjörseðill

Rétt útfylltur kjörseðill í Dalabyggð innheldur nöfn sjö aðalmanna og sjö varamanna.

 

Ef kjósandi ritar of mörg nöfn aðalmanna telst atkvæðið ógilt.

 

Atkvæðið er hins vegar gilt þó ekki sé ritaður fullur fjöldi aðal- eða varamanna. Kjörstjórn ber því almennt að taka atkvæði gilt þó þar séu aðeins tilgreind nöfn 1-6 aðalmanna, svo fremi að ekki sé um aðrar ástæður að ræða sem leitt geta til ógildingar.

 

Atkvæði er ekki ógilt þótt vanti fornafn eða eftirnafn ef enginn vafi er á við hvern er átt.

 

Æskilegt er að kjósandi sé búinn að ákveða hvernig hann kýs áður en hann mætir á kjörstað til að geta ritað rétt nöfn og heimili þeirra aðal- og varamanna sem hann hyggst greiða atkvæði. Ekkert er því til fyrirstöðu að kjósandi riti slíkar upplýsingar á blað sér til minnis og hafi það sér til stuðnings í kjörklefa á meðan hann greiðir atkvæði.

 

Lög nr. 5/1998, um kosningar til sveitarstjórna