Stjórnsýsluhús Dalabyggðar,
    Miðbraut 11,
    370 Búðardal,
    kennitala: 510694-2019
    Sími: 430 4700

    dalir@dalir.is

Byggðasafn Dalamanna

Landnámsmenn í Dölum


 

 

Auður djúpugða

"Auður nam öll Dalalönd í innanverðum firðinum frá Dögurðará til Skraumuhlaupsár. Hún bjó í Hvammi við Aurriðaárós; þar heita Auðartóftir. "  (Landnáma 37. kafli)

 

Auður hin djúpúðga, „er tignust var allra landnámskvenna“, nam Suðurdali alla og nær alla Hvammssveit, og skipti síðan þeim löndum með frændum sínum og öðrum skipverjum.

 

Kjallakur gamli

"Kjallakur hét maður, son Bjarnar hins sterka, bróður Gjaflaugar, er átti Björn hinn austræni; hann fór til Íslands og nam land frá Dögurðará til Klofninga og bjó á Kjallaksstöðum. " (Landnáma 40. kafli)

 

Kjallakur gamli bjó að Kjallaksstöðum og hafði hann numið Meðalfellsströnd alla utan frá Klofning og inn fyrir Ketilsstaði í Hvammssveit inn að Dögurðará. Einnig virðist hann hafa lagt eyjar þær allar, er þar voru fyrir landi, undir landnám sitt. Dreifðust börn hans um landnámssvæðið og reistu þar bú. Getur Landnáma víða barna hans. 

 

Geirmundur heljarskinn

"Geirmundur hélt inn að Meðalfellsströnd og nam land frá Fábeinsá til Klofasteina; hann lagði í Geirmundarvog, en var hinn fyrsta vetur í Búðardal." (Landnáma 40. kafli)

 

Geirmundar heljarskinns hafði áður verið konungur í Noregi. Fábeinsá liggur niður undan Stakkabergi og Klofasteinar eru á Nýpurhlíð. Geirmundur og Kjarlakur börðust um landsvæði milli sinna landnáma og hafði Geirmundur betur í þeirri viðureign.

 

Steinólfur hinn lági

"Steinólfur nam land inn frá Klofasteinum, en Úlfur fyrir vestan fjörð, sem enn mun sagt verða." (Landnáma 40. kafli)

 

Steinólfur lági nam land frá Klofasteinum til Grjótvallarmúla fyrir innan Stórholt og hefur því numið Saurbæ allan, enda segir Landnáma, að Sléttu-Björn hafi numið land í Saurbæ, að ráði Steinólfs, en Sléttu-Björn bjó í Staðarhólsdal. Það er því helst að sjá, að Dalasýsla hafi í upphafi í grófum dráttum skipst í fjórar sveitir, hver með sinn fyrirmann, en brátt hófust erjur innsveitis, eins og með Fellstrendingum.

 

Ólafur belgur

"Óláfur belgur, er Ormur hinn mjóvi rak á brutt úr Óláfsvík, nam Belgsdal og bjó á Belgsstöðum, áður þeir Þjóðrekur ráku hann á brutt; síðan nam hann inn frá Grjótvallarmúla og bjó í Óláfsdal. Hans son var Þorvaldur, sá er sauðatöku sök seldi á hendur Þórarni gjallanda Ögmundi Völu-Steinssyni; fyrir það vó hann Ögmund á Þorskafjarðarþingi."  (Landnáma 42. kafli)

 

Gils skeiðarnef

"Gils skeiðarnef nam Gilsfjörð milli Óláfsdals og Króksfjarðarmúla; hann bjó á Kleifum. Hans son var Héðinn, faðir Halldórs Garpsdalsgoða, föður Þorvalds í Garpsdal, er átti Guðrúnu Ósvífursdóttur."  (Landnáma 42. kafli)