Stjórnsýsluhús Dalabyggðar,
    Miðbraut 11,
    370 Búðardal,
    kennitala: 510694-2019
    Sími: 430 4700

    dalir@dalir.is

Saga Byggðasafns Dalamanna


 

Stofnandi safnsins og safnvörður fyrstu árin var Magnús Gestsson frá Ormsstöðum.

 

  

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þjóðhátíðarárið 1974 var fyrsta sýning Byggðasafns Dalamanna  í Búðardal í sex sýningarkössum. Sýningarkassar þessir eru enn notaðir á safninu. 

 

Byggðasafn Dalamanna að Laugum var fyrst opnað almenningi til sýnis á fyrstu Jörfagleði Dalamanna í nútímastíl, 23. apríl 1977.

 

Byggðasafn Dalamanna var síðan formlega vígt á sumardaginn fyrsta, 20. apríl, 1979 af Hr. Kristjáni Eldjárn þáverandi forseta Íslands.

 

Söfnun muna

Sumarið 1968 fór Magnús Gestsson um sýsluna og safnaði munum í samvinnu við Sýslunefnd Dalasýslu. Munirnir voru síðan geymdir í kjallara Dalabúðar.

 

Þegar söfnunin var komin á rekspöl var haft samband við þjóðminjavörð, sem eftirlitsmann byggðasafna.  Opinber stefna var þá að sameina tvær til þrjár sýslur um hvert byggðasafn á þeim svæðum, þar sem ekki var komið á skipulag um þessi mál. Skyldi því koma upp sameiginlegu safni í Stykkishólmi fyrir Dalasýslu, Snæfellsnessýslu og Austur-Barðastrandarsýslu.

 

Sýslunefnd Dalasýslu kaus söfnunarnefnd. Nefndin felldi á fundi sínum tillögu þjóðminjavarðar um sameiginlegt safn og  samþykkti samhljóða að koma upp byggðasafni í Dalasýslu. Á næsta sýslufundi var svo ályktun söfnunarnefndar samþykkt. Þjóðminjavörður samþykkti svo Byggðasafn Dalamanna.

 

Byggðasafn Dalamanna safnar fyrst og fremst munum úr Dalasýslu.

  

Húsnæði

En það var ekki nóg að safna munum, það þurfti húsnæði undir safnið. Þegar byggð var ný álma við Laugaskóla varð til kjallari umfram áætlun. Varð það að samkomulagi með ráðamönnum húsnæðisins og sýslunefndar að sýslan fengi hluta af þessum kjallara á leigu til 20 ára undir byggðasafnið. Skyldi sýslusjóður láta ganga frá húsnæðinu og kostnaðurinn síðan ganga upp í leiguna.

 

Var kjallarinn afhentur vorið 1975 og gekk Magnús frá húsnæðinu það sumarið. Munirnir voru síðan fluttir úr Dalabúð að Laugum. Sumarið 1976 vann Magnús að því að hreinsa munina og gera við þá sem illa voru farnir, smíða hillur og sýningarskápa.

 

Fyrsta sýningarrýmið voru 120 fermetrar og var það fullnýtt frá upphafi. Vorið 1978 bættist við 70 fermetra jarðhús bakvið kjallarann og þar sett upp baðstofa frá Leikskálum í Haukadal og fleiri stærri munir. Auk þess sem starfaðstaða fékkst fyrir safnvörð.

 

Enn ein sneiðin af kjallaranum bættist við 1980.  Voru þar gerð tvö hólf, í öðru komið fyrir búrgögnum og í hinu gerðar hlóðir. Það sem eftir stóð af kjallaranum fékk safnið til umráð 1981 Var þá hólfuð af 30 fermetra stofa fyrir húsgögn og myndir. Jafnframt fékkst pláss fyrir hestaheyvinnutæki, rakstrarvél og sláttuvél. Var þeim bjargað í hús vorið 1982.

 

Nú hefur safnið allan kjallarann til umráða og eru það um 320 fermetrar að gólfrými. Er þar öll starfsemi safnsins, sýningarrými, starfsaðstaða og geymslur.